- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Frábær vinnudagur var haldinn á skíðasvæðinu í Stafdal sunnudaginn 29. september. Það voru vaskir sjálfboðaliðar úr hópi iðkenda Skíðafélagsins í Stafdal og foreldra þeirra.
Hópurinn tók til hendinni á svæðinu og er óhætt að segja að verkefnalistinn hafi verið langur. Var m.a. unnið að því að flytja töfluna fyrir kaðallyftuna inn í lyftuskúrinn svo rafmagnið verði örugglega til friðs í vetur og rusl hreinsað af svæðinu. Alls var farið með 4 kerruhlöss af rusli á sorpstöðina á Seyðisfirði sem Gulli bæjarverkstjóri var svo vinsamlegur að opna fyrir hópinn þennan dag.
Það var sannarlega kominn tími til að taka til hendinni í Stafdal og nú þarf bara að bíða eftir því að snjórinn láti sjá sig svo hægt sé að fara að bruna niður.