Tilkynningarskylda

Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga ber almenningi skylda til að gera starfsfólki barnaverndar viðvart gruni hann að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu. Samkvæmt 19. gr. sömu laga getur einstaklingur sem tilkynnir óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd.

Samkvæmt 17. gr. barnaverndarlaga ber öllum þeim sem hafa afskipti af börnum starfa sinna vegna að gera starfsfólki barnaverndar viðvart verði þeir varir við það í starfi sínu að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu. Tekið er fram að tilkynningarskylda gengur framar ákvæðum laga og siðareglna um þagnarskyldu starfsstétta. Þá geta þeir sem tilkynna á grundvelli þessarar greinar ekki óskað eftir nafnleynd.

Í 18. gr. barnaverndarlaga er fjallað um tilkynningarskyldu lögreglu en lögreglan sendir barnaverndarnefnd afrit af lögregluskýrslum hafi hún haft afskipti af börnum undir 18 ára aldri. Þá ber barnaverndarstarfsfólki skylda til að vera viðstatt skýrslutökur af börnum hafi foreldrar ekki tök á því.

Starfsfólk Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs tekur á móti tilkynningum er varðar þjónustusvæði félagsþjónustunnar í síma 4 700 700 milli kl. 9 og 15 alla virka daga. Utan dagvinnutíma er hægt að hafa samband við neyðarlínuna 112 telji einstaklingur að tilkynningin krefjist tafarlausra aðgerða.

 

Síðast uppfært 03. nóvember 2020