- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað varð formlega til sem stjórnsýslueining 1. nóvember árið 2004. Íbúar þáverandi sveitarfélaga á Fljótsdalshéraði, nema íbúar í Fljótsdalshreppi, höfðu þá í kosningum samþykkt að sameina þrjú sveitarfélög af fjórum, sem þá voru, í eitt og var nafnið Fljótsdalshérað valið sem heiti þess. Sameiningar sveitarfélaga höfðu áður orðið á Héraði í lok 10. áratugar síðustu aldar, en þá sameinuðust Jökuldalshreppur, Hlíðarhreppur og Tunguhreppur og til varð sveitarfélagið Norður-Hérað. Einnig höfðu Egilsstaðabær, Skriðdalshreppur, Vallahreppur, Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá sameinast í sveitarfélagið Austur-Hérað. Þessi tvö sveitarfélög, ásamt Fellahreppi sameinuðust svo í Fljótsdalshérað.
Við sameiningu þeirra varð til víðfeðmasta sveitarfélag landsins, sem er um 8.884 ferkílómetrar að flatarmáli. Miklar fjarlægðir gera íbúum í dreifbýli sveitarfélagsins erfiðara fyrir að sækja og fá þjónustu, sem að miklu leyti er veitt frá þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ. Að sama skapi eykur þessi dreifða byggð og landstærð sveitarfélagsins á fjölbreytileika þess og landgæði, bæði með tilliti til búskapar og ekki síður með tilliti til ferðamanna sem sækja Héraðið heim. Fjölbreytileiki svæðisins er því mikill, allt frá sjó og inn til jökla. Frá svörtum Héraðssöndum um skógi vaxið Mið-Héraðið og allt inn til Vesturöræfanna þar sem Vatnajökull og Kverkfjöll taka síðan við í allri sinni dýrð.
Mikill fróðleikur er til um Fljótsdalshérað á prentuðu máli. Til fornsagna sem gerðust á Héraði má telja Fljótsdælu (Droplaugarsonasögu) og Hrafnkelssögu Freysgoða. Af nýrri bókum má nefna ritin Sveitir og jarðir í Múlaþingi, Náttúrumæraskrá, Lagarfljót mesta vatnsfall Íslands og Árbækur Ferðafélags Íslands sem fjalla um þetta landsvæði. Einnig hafa verið skrifaðar byggðasögur fyrir nokkra hinna gömlu hreppa sem nú tilheyra Fljótsdalshéraði, svo sem Egilsstaðabók, Fellamannabók og Skriðdæla.