Þjóðleikur 10 ára - í Sláturhúsinu

Í ár er 10 ára afmæli Þjóðleiks, en Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Á Þjóðleik koma saman leikhópar ungs fólks úr mörgum byggðarlögum Austurlands og sýna leikverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir Þjóðleik.

Að þessu sinni fer Þjóðleikur fram í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum fimmtudaginn 2. maí.

Hátíðin verður sett klukkan 13 af Ara Matthíassyni Þjóðleikhússtjóra og Stefáni Boga Stefánssyni, forseta bæjarstjórnar, en síðan hefjast leiksýningar.

Í ár taka þátt leikhópar frá Egilsstöðum, Neskaupsstað, Reyðarfirði og Seyðisfirði, í allt 5 leikhópar, sem sýna verkin á tveim leiksviðum í Sláturhúsinu. Hver hópur sýnir tvisvar.

Verkin sem sýnd verða í ár eru Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason og Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Backmann.

Allir eru velkomnir á leiksýningarnar og er aðgangur gjaldfrjáls.

Þjóðleikur á Facebook https://www.facebook.com/events/403629383807074/