Leikfélag Fljótsdalshéraðs fékk menningarverðlaunin

Einar Sveinn Friðriksson og Fjóla Egedía Sverrisdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd leikféla…
Einar Sveinn Friðriksson og Fjóla Egedía Sverrisdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd leikfélagsins.

Menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs voru veitt í annað sinn þann 17. júní 2020. En reglur um þau voru samþykktar af atvinnu- og menningarnefnd og bæjarstjórn sveitarfélagsins í fyrravetur. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á liðnu ári. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar á menningar- og listastarfi í sveitarfélaginu.
Í vor var auglýst eftir ábendingum til menningarverðlaunanna. Þrjár tilnefningar bárust og komst atvinnu- og menningarnefnd að þeirri niðurstöðu að Leikfélag Fljótsdalshéraðs hlyti viðurkenninguna að þessu sinni.

Gunnhildur Ingvarsdóttir, formaður atvinnu og menningarnefndar, afhenti fulltrúum leikfélagsins viðurkenningarskjal ásamt peningaupphæð við hátíðlega athöfn í Sláturhúsinu, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.