- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Leikkonan, söngkonan og myndlistarkonan Kjuregej Alexandra Argunova verður allan aprílmánuð á Egilsstöðum að vinna að stórri sýningu sem opnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á hátíðinni List án landamæra þann 1. maí. Þar að auki heldur Kjuregej námskeið í mosaik á efri hæð Sláturhússins og miðlar hún þar af list sinni og færni en mosaikgerð lærði hún í Barcelona. Kjuregej er svo líka að vinna í tónlist sinni sem ættuð er frá Jakútíu í Síberíu. Hún mun taka upp tónlist til útgáfu á geisladisk í Sláturhúsinu með Charles Ross, Suncönu Slamnig og Halldóri B. Warén og stefnt er á að halda útgáfutónleika á List án landamæra 1. maí.
Listahátíðin List án landamæra er í fullum undirbúningi og verður margt áhugavert og spennandi í boði. Til að mynda heldur Kjuregej stóra yfirlitssýningu á ýmsum verkum sínum á efri hæð hússins, mosaik, applikering og blönduð tækni, auk þess verða nemendur hennar með í sýningunni, hönnunarnemar munu sýna afrakstur námskeiða, Rauði krossinn sýnir ljósmyndasýninguna HEIMA/HEIMAN, boðið verður upp á Geðveikt kaffihús að hætti Bláklukkna og einnig verður fyrirbærið SVANGAR SKÁLAR en það er samvinnuverkefni leirlistakonunnar Anne Kampp og kvenfélagsins Bláklukku.