- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á árinu 2014 stefnir í að um 51% af heimilissorpi fari í gráu tunnurnar (tunnur fyrir almennt sorp) en 30% í brúnu tunnurnar (og heimajarðgerð) og 19% í grænu tunnurnar (sem eru fyrir endurvinnsluhráefni). Árið 2010 sem var fyrsta heila árið eftir að flokkun hófst, voru hlutföllin 47% í gráu tunnurnar 28% í brúnu tunnurnar og heimajarðgerð og 25% í grænu tunnurnar. Markmiðið er að almennt sorpi verði um eða innan við 45% af heildar heimilissorpi sem fellur til í sveitarfélaginu. Til að ná því markmiði þarf hver íbúi að draga úr magni almenns sorps sem frá honum kemur, um u.þ.b. 30g á dag og koma því í endurvinnslu eða jarðgerð. Fljótsdalshérað skorar því á alla íbúa að vanda flokkun sorps.
Mjög mikilvægt er að í grænu og brúnu tunnurnar fari aðeins það sorp sem þangað á að fara. Nýlega varð að urða rúm tvö tonn af endurvinnsluhráefni úr grænu tunnunum vegna þess að í einni slíkri leyndust hálffullar málningardósir. Þegar bíllinn pressaði sorpið eyðilagði innihald dósanna allt sem komið var í bílinn.Vart þarf að benda íbúum á að hvorki grænu né brúnu tunnurnar eru heldur fyrir gæsahræ, kattasand eða sambærilegan úrgang, en dæmi eru um að gæsahræ hafi komið í ljós í flokkunarstöð Íslenska Gámafélagsins á Reyðarfirði þar sem endurvinnsluhráefnin eru flokkuð og send til endurvinnslu.
Í tilefni jólanna er rétt að benda á að allur jólapappír (ekki plast, eða borðar og bönd) má fara í sér poka í grænu tunnurnar líkt og önnur endurvinnsluhráefni.
Einnig er minnt á að kassar undan mandarínum, og aðrir trékassar, eru ekki endurvinnanlegir og eiga því ekki að fara í grænu tunnurnar. Töluvert er af heftum í hverjum mandarínukassa og er því ekki heldur leyfilegt að setja þá í brúnu tunnurnar. Ef íbúar þurfa að losa sig við mandarínukassa þarf því að henda þeim með almennu sorpi í gráu tunnurnar. Hins vegar má finna ýmis not fyrir kassana og spara þannig m.a. plássið í tunnunum.