Vistvernd í verki byrjar á ný

Umhverfisverkefnið „Vistvernd í verki“ er farið af stað á ný.

Þar með gefst íbúum Fljótsdalshéraðs kostur á að taka þátt í því, enda er það jafnt opið einstaklingum, fjölskyldum og starfsfólki fyrirtækja. Þetta er alþjóðlegt umhverfisverkefni og markmið þess er að styðja og hvetja fólk til að taka upp vistvænni lífsstíl. Með verkefninu eru íbúar aðstoðaðir við að gera breytingar á heimilishaldi og daglegum venjum til að draga úr álagi á umhverfið, sem einnig getur haft fjárhagslegan ávinning fyrir þátttakendur. Ísland er eitt 19 landa sem „Vistvernd í verki“ hefur fest rætur í, en verkefnið er hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum, svo vitað sé. Um 560 íslensk heimili hafa þegar tekið þátt þar af 107 í Fljótsdalshéraði.
Vegna verkefnisins er búið að koma upp kynningarbási í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum og þar getur fólk nálgast bæklinga um verkefnið og skráð þátttöku sína. Þá hefur verið sett upp farandsýning í Safnahúsinu að Laufskógum 1 á Egilsstöðum. Tilgangur sýningarinnar er að vekja fólk til umhugsunar um aðgerðir til að færa heimilishaldið í vistvænna horf. Sýningin er lifandi og myndræn en um leið og sýningin er skoðuð er hægt að svara getraunaseðli og stinga í þar til gerðan póstkassa, en svörin við spurningunum er að finna á sýningunni. Vinningar eru í boði Landverndar, Eikar sf, Móður jarðar, Húss (h)Andanna og Te og kaffi. Dregið verður 1. febrúar nk. Auk alls þessa liggja skráningarblöð frammi á skrifstofum sveitarfélagsins á Egilsstöðum og í Fellabæ en fræðslufundir með þátttakendum hefjast í janúar.