Vistvænar áherslur í innkaupareglum Fljótsdalshéraðs

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti í lok síðasta árs innkaupastefnu og innkaupareglur fyrir sveitarfélagið, í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 84/2007. Umhverfisáherslur og vistvæn innkaup eru einn þáttur reglnanna.

Innkaupastefnan var unnin með hliðsjón af þörfum sveitarfélagsins, en innkaup og innkaupaaðferðir sveitarfélagsins voru tekin til skoðunar í því skyni. 

Það er stefna Fljótsdalshéraðs að innkaup sveitarfélagsins stuðli að hagkvæmni í rekstri og hvetji um leið til nýsköpunar og framsækinnar þróunar í atvinnulífi, með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Innkaupastefnan er í samræmi við framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027.

Fljótsdalshérað fléttar umhverfisáherslur og vistvæn innkaup inn í innkaupareglur sínar og mun vera fyrsta sveitarfélagið til að gera slíkt með markvissum hætti. Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupandann, fyrir utan það að draga úr umhverfisáhrifum. Vistvæn innkaup geta minnkað rekstrarkostnað, aukið gæði og ekki síst geta vistvæn innkaup verið drifkraftur í nýsköpun og aukið framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem nýtist samfélaginu í heild.


Í innkaupareglunum eru skilgreindar leiðir til að vinna innkaupastefnunni framgang, m.a. með því að stjórnsýsla við innkaup sé vönduð, jafnræðis seljenda sé gætt og stuðlað sé að virkri samkeppni. Leitast verður við að gera innkaupin enn markvissari, innkaup stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins eru samræmd eftir föngum og áður en innkaup eru gerð er þörfin vandlega yfirfarin út frá sjónarmiðum viðkomandi notenda. Við innkaup er tekið tillit til verðs, gæða, umhverfisáhrifa og líftímakostnaðar. Leitast verður við að eiga góð samskipti við birgja, ekki síst í því skyni að finna nýjar lausnir sem geta leyst betur þarfir sveitarfélagsins á hagkvæman hátt. Lögð er áhersla á innkaupafræðslu og þekkingu starfsfólks.

Verklag við kaup á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum er svo nánar útfært í innkaupareglum Fljótsdalshéraðs sem sett eru með hliðsjón af ákvæðum laga og reglna um opinber innkaup. Í innkaupareglunum er m.a. mælt fyrir um að innkauparáð skuli sett á laggirnar sem hafi yfirumsjón með framkvæmd og samræmingu innkaupa og eflingu innkaupaþekkingar hjá sveitarfélaginu. Innkauparáðið veitir aðstoð og er til ráðgjafar um innkaup og hefur auk þess eftirlit með að svið, deildir og stofnanir fylgi innkaupastefnu og innkaupareglum sveitarfélagsins. 

Til fróðleiks má nefna að meðal þess sem fram kom í undirbúningsvinnunni hjá Fljótsdalshéraði – og það sem unnið verður nánar með – er t.d. hvernig hagað er verðfyrirspurnum og pöntunum, hverjir sjái um innkaup, hvernig innkaup eru gerð t.d. hve mikill tími og fyrirhöfn fer í innkaupaferðir og flutning vöru af hálfu starfsmanna, hvort fyrirkomulag reikninga frá seljendum sé eins og best hentar sveitarfélaginu sem kaupanda, flutningur vöru, afslættir og magninnkaup, fræðsla innkaupafólks, birgðageymsla, samstarf og sameiginleg innkaup stofnana sveitarfélagsins. 

Á næstu dögum verður haldinn fræðslufundur fyrir stjórnendur og innkaupaaðila stofnana sveitarfélagsins.

Í mars sl. var samþykkt stefna og aðgerðaáætlun ríkisins um vistvæn opinber innkaup. Áætlað er að íslenska ríkið kaupi vörur, þjónustu og verk fyrir yfir 100 milljarða árlega og reikna má með að sveitarfélög kaupi inn fyrir annað eins. Fyrirhyggja og markviss innkaup geta skilað kaupandanum umtalsverðum sparnaði, auk þess sem umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum geta vegið afar þungt á markaðnum.

Alta, ráðgjafarfyrirtæki, hefur aðstoðað Fljótsdalshérað við þessa vinnu og komu Birna Helgadóttir umhverfisfræðingur og Björg Ágústsdóttir lögfræðingur að því verki. 
 
 
Innkaupastefnu og innkaupareglur Fljótsdalshéraðs er að finna hér