Vinnuskólinn: Njólar, sláttur og sviðsverk

Í dag eru þeir nemendur sem hófu vinnu á fyrsta tímabili vinnuskólans að klára sína fimmtu viku.
Sumarið hefur gengið vel og það er kraftur í ungmennum sveitarfélagsins.
Mikill tími hefur farið í að slá fyrir eldri borgara bæjarins en hefðbundin verkefni eins og arfi og ruslatínsla hafa líka leikið nokkuð stórt hlutverk í starfi krakkanna.

Í ár stóð nemendum vinnuskólans það til boða að vera í listahópi en frumsýning á verkinu „Í myrkrinu“ er í kvöld í Sláturhúsinu. Þá heldur sveitarfélagið úti Norður-Héraðs hópi í ár og sér hann um að halda dreifbýlinu okkar fögru og flottu.

Í vikunni sem leið var brugðið á það ráð að skipta nemendunum í lið og kepptu þau sín á milli í að taka upp sem flesta njóla. Egilsstöðum og Fellabæ var þannig skipt upp í nokkur svæði og náðu ungmennin að fylla 200 stóra poka af njóla en sigurliðið náði að troðfylla 23 poka á þremur klukkustundum, vel gert.

Mynd af sigurliðinu má sjá hér að ofan.

Nemendur og starfsfólk vinnuskólans vilja að lokum hvetja alla íbúa bæjarins til að ganga vel um, sýna náunganum virðingu, henda rusli í ruslatunnur og hjálpa til við að halda bænum fallegum í sumar.
Allar upplýsingar um sviðsverkið ,,Í myrkrinu“ má sjá hér: https://www.facebook.com/events/322846341211762/