Vinnuskóla Fljótsdalshéraðs vantar flokkstjóra

Auglýst hefur verið eftir umsækjendum um störf flokkstjóra í Vinnuskóla Fljótsdalshéraðs sumarið 2012 og er umsóknafresturinn til 18. mars nk. Leitað er eftir samviskusömum, sjálfstæðum og reglusömum einstaklingum með bílpróf og er kostur ef þeir eru tuttugu ára eða eldri. Flokkstjórarnir koma m.a. til með að; stjórna starfi hóps nemenda Vinnuskólans, leiðbeina nemendum og fræða þá um rétt vinnubrögð og verkþætti í starfinu, halda skýrslu um mætingar og ástundun nemenda og vinna markvisst að því að efla liðsheild og góða líðan nemenda í Vinnuskólanum.

Vinnutíminn er frá kl. 8:00 til 17:00. Flokkstjórar koma til með að hefja störf um miðjan maí, eða þegar þeir hafa tök á, og vinna til 24. ágúst, eða skemur ef þeir óska eftir því.

Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu sveitarfélagsins og bæjarskrifstofunum Lyngási 12. Umsóknum skal skila á netfangið freyr@egilsstadir.is eða á skrifstofu sveitarfélagsins.

Þeir sem sótt hafa um en ekki fengið svar um að umsóknin hafi verið móttekin, eru vinsamlegast beðnir um að sækja um aftur.