Vinna við gerð aðalskipulags hafin

Vinna við gerð aðalskipulags fyrir Fljótsdalshérað hófst nýverið. Þetta verður fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins, eftir að það varð til árið 2004. Lögð er áhersla á að aðalskipulagið verði unnið í samvinnu við íbúa.

Aðalskipulagi er ætlað að vera umgjörð um farsælt mannlíf í sveitarfélaginu og í skipulaginu er varpað upp mynd af þeirri framtíð sem stefnt er að. Sýnin byggir á sérstöðu Fljótsdalshéraðs, þeim auðlindum sem hér eru og þarf að standa vörð um eða efla. Stefna og markmið vísa síðan veginn á þeirri leið sem sveitarfélagið vill fara.

Mikilvægt er að íbúar í sveitarfélaginu láti í sér heyra þegar mótuð er stefna fyrir þeirra eigið samfélag, því staðbundin þekking er ómetanleg og hún fæst ekki annarsstaðar. Við upphaf aðalskipulagsvinnunnar verður m.a. höfð hliðsjón af skilaboðum íbúa á Héraðsþingi 2005.

Gerð hefur verið sérstök vefsíða sem ætlað er að vera upplýsingagátt til íbúa um framvindu vinnunnar. Hér verður komið fyrir tilkynningum um fundi og kynningar og leitað til íbúa með fyrirspurnir. Einnig er hægt að koma fyrirspurnum og ábendingum til ráðgjafanna á netfangið adalskipulag@fljotsdalsherad.is. Öllum fyrirspurnum verður svarað og ábendingar teknar til skoðunar eftir því sem við á. Þessa vefsíðu má nálgast hér eða í gegnum sérstakan borða á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins sem heitir “Aðalaskipulagsgerð taktu þátt”.

Stefna Fljótsdalshéraðs verður höfð að leiðarljósi í aðalskipulagsvinnunni, en þar hefur verið mörkuð sýn sem byggir á þremur stoðum, þekkingu, velferð og þjónustu. Starfshópur um gerð Staðardagskrár 21 vinnur nú að endurskoðun stefnunnar og tillögum um fjórðu stoðina, umhverfi. Þá er unnið að atvinnustefnu fyrir Fljótsdalshérað á sama tíma. Þessi tvö verkefni eru nátengd aðalskipulagsvinnunni og við hana er þess gætt að flétta saman umhverfismál, atvinnumál og skipulagsmál. Markmiðið er að í aðalskipulaginu verði með virkri þátttöku íbúa, mörkuð stefna þar sem einstakir kostir Fljótsdalshéraðs skapa grunn að farsælli framtíð.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur umsjón aðalskipulagsvinnunni í samvinnu við stýrihóp sem skipaður hefur verið af sveitarfélaginu. Tengiliður Fljótsdalshéraðs við Alta er skipulags-og byggingarfulltrúi, Ómar Þ. Björgólfsson.