Vinna við aðalskipulagið á fullu

Nú í sumar heldur vinnan við gerð aðalskipulags Fljótsdalshéraðs áfram og snýst að mestu um upplýsingaöflun og fyrstu tillögur að stefnumótun, þar sem byggt er m.a. á samþykktri Stefnu Fljótsdalshéraðs.

Þriðjudaginn 3. júlí fóru ráðgjafar Alta ásamt fulltrúum sveitarfélagsins í skoðunarferð, þar sem upphérað var heimsótt, allt norður til Möðrudals.  Á myndinni má sjá hluta hópsins, í heimsókn hjá Erni Þorleifssyni, bónda í Húsey.
 
Stýrihóp aðalskipulagsins skipa meðlimir skipulags- og byggingarnefndar, þeir Árni Kristinsson, formaður, Baldur Pálsson, Magnús Jónasson, Eyþór Elíasson og Gylfi Hallgeirsson, ásamt þremur fulltrúum úr bæjarráði, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Guðmundi Ólafssyni og Birni Ármanni Ólafssyni.  Fundi stýrihóps sitja einnig Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri, Ómar Þröstur Björgólfsson, skipulags- og byggingarfulltrúi og Skarphéðinn Smári Þórhallsson, héraðsfulltrúi. 
 
Á fundi stýrihóps þann 2. júlí var m.a. rætt um hvernig aðkomu íbúa og hagsmunaaðila við gerð aðalskipulagsins skuli háttað og verða frekari ákvarðanir teknar á næsta fundi stýrihópsins, í ágúst.  Einnig var rætt um hvernig þær fjórar stoðir sem lagðar eru til grundvallar Stefnu Fljótsdalshéraðs gætu endurspeglast í aðalskipulagi.  Stoðirnar eru þjónusta, þekking, velferð og umhverfi - en sú síðastnefnda er nú í mótun og voru fyrstu tillögur að henni ræddar sérstaklega á fundinum.