Vídeó og kvikmyndahátíðinni 700IS HREINDÝRALAND, lauk um síðustu helgi, en hátíðin var sett laugardaginn 24. mars, í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Á hátíðinni í ár voru sýnd 85 verk, valin úr þeim 500 sem send voru inn frá öllum heimshornum.
Veitt voru sérstök verðlaun fyrir tvö verk. Verk hátíðarinnar var ´HOT AIR´ eftir Angela Ellsworth frá Arizona í Bandaríkjunum, mjög persónulegt og sterkt verk um hvernig kona sem misst hefur bæði brjóstin vegna krabbameins tekur lífinu enn með gleði og gríni. Alcoa veitti þessu verki peningaverðlaun.
Verðlaun fyrir íslenskt verk sem stóð uppúr hlaut Helena Stefánsdóttir fyrir mynd sína ´Anna´. Sagan er einnig mjög persónuleg og sterk. Glitnir veitti þessu verkefni peningaverðlaun.
Dagskráin í ár var enn umfangsmeiri en í fyrra, til dæmis voru heimildarmyndir sýndar á Skriðuklaustri, fyrirlestur fyrir börn og unglinga haldinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum, námskeið í vídeólist haldin og síðan tóku Steina Vasulka, Rúrí og Finnbogi Pétursson þátt í listamannaspjalli á Eiðum. Sigurjón Sighvatsson stjórnaði spjallinu.
Hátíðinni lauk um helgina í Gallerí Bláskjá sem um leið opnaði í fyrsta skipti á Egilsstöðum. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á www.700.is