Vetrarþjónusta á Möðrudals- og Mývatnsöræfum

Á fundi bæjarráðs 26. febrúar 2014 greindi bæjarstjóri frá því að skömmu fyrir fundinn fékk hann upphringingu frá svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Austurlandi, þar sem tilkynnt var um skerta vetrarþjónustu á Möðrudals- og Mývatnsöræfum vegna mikils fannfergis þar.
Bæjaráð lýsti strax þungum áhyggjur af stöðunni og fól bæjarstjóra að kalla eftir formlegum svörum frá Vegagerðinni um framhaldið.

Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi sínum þann 5. mars sl. og þar var eftir farandi bókun samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs ítrekar áhyggjur bæjaryfirvalda vegna þessarar ákvörðunar Vegagerðarinnar, sem nú þegar hefur valdið þjónustuaðilum og íbúum á svæðinu töluverðum vandræðum. Tengingar við heilbrigðisstofnanir eru takmarkaðar, dagvöru- og fiskflutningar hafa riðlast, auk þess sem að íbúum á Austurlandi er á vissan hátt gert að sæta meiri takmörkun hvað ferðamöguleika varðar en íbúar annarra landshluta þurfa að búa við.

Vegagerðin er því hvött til að afturkalla þessa ákvörðun við allra fyrsta tækifæri og halda sig við fyrri opnunardaga eftir því sem veðurfar mögulega leyfir.