Verðlaunaafhending og ljósmyndasýning

Á Sumardaginn fyrsta var opnuð ljósmyndasýning í Sláturhúsinu þar sem kynntar eru þær myndir sem bárust í Ljósmyndaleik Fljótsdalshéraðs og Myndsmiðjunnar og fram fór í janúar og febrúar. Alls eru það rúmlega 600 myndir frá 47 manns. Dómnefnd valdi sex myndir og var höfundum þeirra veitt viðurkenning við opnunina. Verkefni dómnefndar var erfitt, enda komu margar myndir til greina. Það var þó sameiginleg ákvörðun nefndarinnar að eftirfarandi myndir verðskuldi viðurkenningu og er hér lýsing hennar á þeim myndum.
 
Besta mynd Ljósmyndaleiksins – Í Skógum
Þessi mynd sýnir að mati dómnefndar einstaklega vel svo margt af því sem Fljótsdalshérað hefur upp á að bjóða. Ræktað land, skógurinn, Snæfell í baksýn og vegurinn sem hlykkjast út í hið ókunna mynda skemmtilegan heildarsvip. Myndin skartar einnig fleiri björtum og skemmtilegum litum en hægt er að finna víðast hvar. Höfundur myndarinnar er Skarphéðinn G. Þórisson.
 
Í flokknum Menning, afþreying, þjónusta, atvinna.
1. sæti – Lagarfljótsbrú
Brúin yfir Lagarfljót er sennilega ein magnaðasta táknmyndin fyrir uppbyggingu þjónustu og atvinnulífs á Fljótsdalshéraði. Myndin býður okkur upp á óvanalegt sjónarhorn þar sem undirstöðurnar eru í aðalhlutverki og er það að mörgu leyti afar viðeigandi. Myndræn uppbygging er sterk og glæsileg. Stólparnir halda þó ekki bara brúnni uppi, heldur einnig myndbyggingunni með tilvísun í umferðarþungann og það traust sem felst í ákveðinni symmetríu. Höfundur myndarinnar er Gunnlaugur Hafsteinsson.
 
2. sæti – Miðnætursól við Stapavík
Sólarlagið býr til fallegan bakgrunn fyrir skemmtilegar skuggamyndir af göngufólki í Stapavík. Annarsvegar sjáum við minjar um frumkvæði og atvinnulíf fyrri tíma, en hins vegar þá afþreyingu og atvinnumöguleika sem felast í ferðamennskunni. Þannig kallast nútíminn á við fortíðina með sólarlag hins gamla og vissunina um nýja upprisu.Höfundur myndarinnar er Jóhanna Hafliðadóttir.
 
Í flokknum Náttúra, útivist.
1. sæti – Í lok fengitíma á Snæfellsöræfum
Dulúðug mynd þar sem fegurð og tign hreindýranna er í forgrunni en á bak við glittir í dularfullt og ævintýralegt landslag. Hreindýrin horfa á ljósmyndarann, sem er þá allt að því genginn inn í myndina, þar sem hann er ekki bara áhorfandi, heldur þátttakandi í myndinni. Gagnkvæmt augnaráð ljósmyndarans og hreindýranna kallast á í gegnum kyrrsetningu myndarinnar. Höfundur myndarinnar er Skarphéðinn G. Þórisson.
 
2. sæti – Hjálpleysa
Skemmtileg myndbygging með einstakri samhverfu og flottum litum. Mynd sem fær mann til að langa til að koma á staðinn og halda áfram veginn inn í óvissuna.  Litirnir og hvernig þeir koma fram á myndinni, minna óneitanlega á Van Gogh í sínum björtustu myndum en þó með óvissan ótta gagnvart ferðinni/ferðalokunum. Höfundur myndarinnar er Gunnlaugur Hafsteinsson.
 
Þá ákvað dómnefnd að viðurkenna myndina Við Fardagafoss, eftir Svanbjörgu Gróu Hinriksdóttur. Um þá mynd segir í umsögn dómnefndar: Dómnefnd þótti þessi mynd verðskulda sérstaka viðurkenningu vegna þeirra tilfinninga sem hún vakti með fulltrúum dómnefndar. Sú fegurð og sakleysi bernskunnar sem er svo auðsæ í myndinni minnir á myndskreytingar í barnabókum fyrri tíma og fær áhorfandann til að langa til að horfa á náttúruna með augum barnsins á ný og upplifa undrunina sem felst í að sjá eitthvað svo dásamlegt í fyrsta sinn.
 
Í dómnefnd voru þau Barbara Gamcarek-Sliwinska, Ólöf Björk Bragadóttir og Stefán Bogi Sveinsson.
 
Ljósmyndasýningin verður opin eins og hér kemur fram:
Föstudagur 26. apríl kl. 14 - 17
Mánudagur 29. apríl kl. 17 - 22
Þriðjudagur 30. apríl kl. 17- 22
Fimmtudagur 2. maí kl. 17- 22