Frá því í nóvemberbyrjun hafa mæður og ungabörn fjölmennt i Vegahúsið á Egilsstöðum á fimmtudagsmorgnum.
Mömmumorgnarnir eru samstarf milli Vegahússins og Rauða krossins, en til stendur að bjóða mæðrum upp á ýmiss uppbyggileg námskeið þeim að kostnaðarlausu. Þegar hefur verið haldið námskeið í ullarþæfingu en á nýju ári verður meðal annars boðið upp á námskeið í myndvinnsluforritinu Photoshop og skyndihjálp. Kristín Scheving forstöðukona Vegahússins segist afar ánægð með viðtökurnar, en milli 10 og 20 konur hafa komið saman í húsinu á fimmtudagsmorgnum, þær eru á öllum aldri og sumar komnar langt að. Kristín telur mikilvægt fyrir konur í barnseignarleyfi að hittast og eiga saman notalega stund. Ekki síst konur sem eru nýfluttar á svæðið og þekkja fáa. Mömmumorgnarnir verða fastur liður í starfi Vegahússins á næsta misseri.