Vel mætt á leiklistarnámskeið

Sláturhúsið menningarsetur. 
Mynd: Unnar Geir Unnarsson
Sláturhúsið menningarsetur.
Mynd: Unnar Geir Unnarsson

Helgina 31. október til 1. nóvember stóðu Listkennsludeild Listaháskóla Íslands og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs fyrir námskeiði fyrir kennara og aðra áhugasama þar sem áhersla var lögð á rödd, spuna og tjáningu. Kennari á námskeiðinu var leikkonan og leiklistarkennarinn Þórey Sigþórsdóttir, sem kennt hefur sambærilegt námskeið í Listaháskólanum um árabil.

Námskeiðið var vel sótt og almenn ánægja með framkvæmd þess. Fólk allsstaðar af Austurlandi sótti námskeiðið sem haldið var í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum. Bæði fólk sem fæst við leiklist í leik eða starfi og svo líka fólk sem þarf starfs síns vegna að koma fram eða notar röddina mikið í starfi. Þátttakendur voru þakklátir fyrir að fá námskeið frá Listaháskólanum austur og þannig losna við fjárútlát vegna flugferða og uppihalds. Að sami skapi finnst stjórnendum Listaháskólans mikilvægt að geta boðið upp á námskeið á landsbyggðinni og þannig tekið þátt í menningu og listum á landsvísu.

Námskeiðið var það fyrsta í röð námskeiða á Austurlandi í gegnum samstarf Listkennsludeildar L.H.Í og Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. Hægt er fá námskeiðin metin til háskólaeininga.