- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Eins og íbúar sveitarfélagsins hafa eflaust orðið varir við fór Unglingalandsmóti UMFÍ fram á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í frábæru veðri. Var mótinu slitið með pompi og prakt og glæsilegri flugeldasýningu á sunnudagskvöld. Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að mótið hafi tekist vel í alla staði. Keppendur og mótsgestir voru til fyrirmyndar, frábær stemning var hjá fjölskyldum á tjaldstæðum og voru götur bæjarins skínandi hreinar alla mótshelgina.
Unglingalandsmót, sem er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð, fór mjög vel fram og voru mótsgestir og heimamenn jákvæðir, ánægðir með veðrið og aðstæður allar og ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta. Meira að segja forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom til Egilsstaða til að vera viðstaddur mótsetningu og heimsótti hann flest keppnissvæði mótsins og hitti keppendur, sjálfboðaliða og skipuleggjendur. Samvinna Björgunarsveitarinnar Jökuls, sem sá um gæslu á tjaldsvæði og fleiri stöðum, skipuleggjenda mótsins og löggæsluaðila var eins og best verður á kosið og mikill samhugur til staðar.
Þó svo að ungmennafélagsandinn svífi yfir vötnum og mestu skipti að taka þátt þá er eftir því tekið þegar met eru sett, en í frjálsum íþróttum voru sett met í þrístökki og kúluvarpi, en hér á mbl.is er hægt að lesa nánar um þau afrek.
Fyrir Fljótsdalshérað er frábært að fá að halda mót eins og Unglingalandsmót, bæði hvað varðar forvarnargildi, eflingu íþróttastarfs og kynningu á sveitarfélaginu. Samvera foreldra og barna í leik og keppni skiptir miklu máli, en Unglingalandsmót er frábær valkostur fyrir alla landsmenn um verslunarmannahelgi. Þá er mót af þessari stærðargráðu lyftistöng fyrir íþróttastarf á svæðinu, ekki síst fyrir smærri íþróttagreinar sem fá góða kynningu og vonandi nýja iðkendur í kjölfarið. Þá heimsækja sveitarfélagið fjölskyldur sem annars gerðu það ekki endilega, sjá upp á hvað Fljótsdalshérað og Austurland allt hefur að bjóða og færa gott orð aftur í sínar heimasveitir.
Það er þó ekki hægt að skrifa frétt um vel heppnað mót nema þakka kærlega öllum þeim sjálfboðaliðum sem gera það mögulegt að halda glæsilegt Unglingalandsmót. Sjálfboðaliðar standa vaktina frá morgni til kvölds á meðan á móti stendur, auk þess að taka þátt í skipulagningu, og gera það af metnaði, gleði og fagmennsku.
Bestu þakkir fyrir Unglingalandsmót UMFÍ 2017, sjáumst öll í Þorlákshöfn 2018.