- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Helgina 23. – 24. júní 2018 var Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum í flokki 11 -14 ára haldið á Egilsstöðum.Mótið tókst í heild sinni mjög vel og er óhætt að segja að keppendur, sjálfboðaliðar og áhorfendur hafi verið sérlega heppin með veður.
Rúmlega 160 keppendur allsstaðar af landinu tóku þátt og var mikið um bætingar og persónulega sigra. Keppt er til stiga á milli félaga í hverjum flokki og svo heildarstiga. Skemmst er frá að segja að HSK vann alla flokka og þar með heildarstigakeppni.
Samhliða Meistaramótinu var haldin þrístökkskeppni í sömu aldursflokkum og mæltist það vel fyrir. Keppendur í verðlaunasætum fengu viðurkenningar áritaðar af Vilhjálmi Einarssyni, silfurhafa í þrístökki á Ólympíleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956, og að auki fékk sigurvegari hvers aldursflokks sérstakan platta gerðan af fyrirtækinu PEZ.
Til að hægt sé að halda svona stórt mót þurfa margir að vinna saman og vilja aðstandendur mótsins þakka sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf. Þá fá keppendur og gestir hrós fyrir góða umgengni um mótssvæði.