Vefsíða til stuðnings heilsársvegi um Öxi

Á fundi fulltrúa sveitarstjórnar Djúpavogshrepps og bæjarráðs Fljótsdalshéraðs sem haldinn var 12. september á Gistihúsinu á Egilsstöðum var formlega opnuð heimasíðan oxi.is.

Á síðunni er að finna fróðleik um Axarveg fyrr og nú og sagt frá baráttu heimamanna fyrir samgöngubótum á þessari fjölförnu leið. Markmiðið með síðunni er að stuðla að upplýstri umræðu um samgöngubætur á Austurlandi og þrýsta á um að hafist verði handa sem fyrst við framkvæmd á heilsársvegi um Öxi.

Samkvæmt því sem kemur frá á vef Djúpavogshrepps eru allar helstu niðurstöður varðandi hina fyrirhuguðu framkvæmd sem eru inn á síðunni teknar úr matskýrslum Vegagerðarinnar og eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegri fyrir lesendur með því að birta meginmál og niðurstöðu úr einstökum köflum.

Á fundi sveitarfélagana var einnig lögð fram eftirfarandi ályktun:

Ályktun frá sveitarstjórn Djúpavogshrepps og bæjarráði á Fljótdalshéraði. 12.09.2011

Sameiginlegur fundur bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og sveitarstjórnar Djúpavogshrepps leggur áherslu á að framkvæmdir vegna jarðgangnagerðar á Austurlandi komi ekki í veg fyrir eðlilegar samgöngubætur á svæðinu. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að framkvæmdir við veg yfir Öxi fari inn á samgönguáætlun og að fjármunum verði ráðstafað til þess verkefnis þannig að framkvæmdum megi ljúka fyrir lok árs 2013. Jafnframt samþykkir fundurinn að vinna áfram að þróun á samstarfi sveitarfélaganna tveggja og er bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs og sveitarstjóra Djúpavogshrepps falið að undirbúa sérstakan fund sveitarstjórnanna þar sem þau mál verði til umfjöllunar.

Á vef Djúpavogshrepps kemur fram að á vefnum oxi.is séu greinar og myndir um Öxi að fornu og nýju, en vefstjóri taki með þökkum við meira efni ef fólk á eitthvað, texta eða myndir, sem henti á vefsíðuna.

Á myndinni sem fylgir má sjá fulltrúar frá bæjarráði Fljótdalshéraðs og sveitarstjórn Djúpavogshrepps á Gistihúsinu á Egilsstöðum.