Vatnajökulsþjóðgarður til umræðu á fundi

Í kvöld, mánudaginn 25. febrúar, kl. 20.00-22.00, verður á Hótel Héraði haldinn fundur um Vatnajökulsþjóðgarðinn, stöðu verkefnisins og þau tækifæri sem honum kunna að tengjast. Fundurinn er ætlaður til upplýsingar og umræðu um hlutverk og framtíð garðsins.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
 Ávarp formanns stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs – Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra,
 Þjóðgarður og ferðaþjónusta; dæmisögur frá Þingvöllum og Nýja Sjálandi – Einar Sæmundssen, fræðslufulltrúi Þjóðgarðsins á Þingvöllum,
 Kynning á stöðu verkefnisins – Eiríkur Björn Björgvinsson, formaður svæðisráðs Austursvæðis,
 Umræður og fyrirspurnir.

Það er svæðisráð Austursvæðis sem boðar til fundarins, en umhverfisráðherra skipaði fjögur svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs í júní 2007. Í svæðisráðunum sitja sex fulltrúar: þrír fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur af ferðamálasamtökum á viðkomandi svæði, einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum.

Hlutverk svæðisráða Vatnajökulsþjóðgars fram að stofnun hans er að veita ráðgjöf við gerð reglugerðar um þjóðgarðinn og annan undirbúning. Auk þess munu formenn svæðisráðanna sitja í stjórn þjóðgarðsins. Svæðisráð Austursvæðis skipa Eiríkur Björn Björgvinsson, formaður, samkvæmt tilnefningu Fljótsdalshéraðs, Björn Ármann Ólafsson, varaformaður, samkvæmt tilnefningu Fljótsdalshéraðs, Magnhildur Björnsdóttir samkvæmt tilnefningu Fljótsdalshrepps, Skarphéðinn Þórisson samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka
Þórhallur Þorsteinsson samkvæmt tilnefningu Samtaka útivistarfélaga, Skúli Björn Gunnarsson samkvæmt tilnefningu Ferðamálasamtaka Austurlands.