Vallarveita: Íslandsbanki fjármagnar framkvæmdir

Íslandsbanki undirritaði nýverið samning um að fjármagna framkvæmdir Hitaveitu Egilsstaða og Fella við Vallarveitu. Gert er ráð fyrir að kostnaður við veituna verði um 200 milljónir króna. Verkefnið tryggir sumarhúsabyggð á Völlunum heitt vatn og gerir mönnum kleift að koma upp heilsárshúsum og bæta nýtingu á húsunum.

Við undirritunina sagðist Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri HEF, ánægður með að geta veitt heitu vatni inn á Velli, sem efli svæðið enn frekar sem ferðamannaparadís. Þá stækki þetta þjónustusvæði Hitaveitunnar og bæti þar með rekstrargrunn hennar.

Ormarr Örlygsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Fljótsdalshéraði, sagði að bankinn hafi áður átt mjög gott samstarf við Hitaveituna og raunar sveitarfélagið í heild, þannig að þetta væri bara enn ein staðfesting á því að báðir aðilar vildu byggja áfram á því. Íslandsbanki teldi mikilvægt að taka þá í uppbyggingu á sínu nærumhverfi og þetta væri liður í því.