- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þann 19. nóvember 2014 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs að ráðast í úttekt á skólastarfi í grunn- og tónlistarskólum í sveitarfélaginu.
Markmiðið með úttektinni er að móta hugmyndir um framtíðarskipulag skólastarfs í sveitarfélaginu og afla gagna sem nýtast megi við endurskoðun menntastefnu, m.a. með tilliti til nýrrar námskrár.
Nú er vinna við úttektina hafin og er það Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri sem annast verkið.
Óskað hefur verið eftir þátttöku nemenda, foreldra og starfsmanna í rýnihópum vegna úttektarinnar með það að markmiði að fá sjónarmið þessara hópa varðandi fyrirkomulag skólamála. Rýnihópar munu ræða við úttektaraðila og koma þannig hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri.
Við sameiningu Norður-Héraðs, Austur-Héraðs og Fellahrepps var sveitarfélagið Fljótsdalshérað stofnað árið 2004. Fyrirkomulag skólamála (í grunn- og tónlistarskólum) hefur ekki breyst að ráði síðan þá og markmið úttektarinnar er m.a. að horfa til framtíðar og skoða möguleika sem gætu verið varðandi bætt skólastarf, aðbúnað nemenda og starfsmanna og þróun skólamála í sveitarfélaginu. Skoða á faglega, félagslega og fjárhagslega þætti skólastarfs og fá heildaryfirsýn yfir þennan málaflokk sem um 55% allra útgjalda sveitarfélagsins er varið til.
Það er von oddvita framboða sem skipa bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, að úttektin muni varpa ljósi á möguleika sem kunna að vera í mótun skólastarfs þannig að það þjóni sem best íbúum í sveitarfélaginu, jafnt í dreifbýli sem í þéttbýli.
Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar þegar þær liggja fyrir og þá jafnframt ákveðið hvernig unnið verður með það, sem þar kemur fram, í samvinnu við skólasamfélagið.
Egilsstöðum, 13. janúar 2015
Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti B-lista
Anna Alexandersdóttir, oddviti D-lista
Sigrún Blöndal, oddviti L-lista