Útsvarslið Fljótsdalshéraðs mætir Hafnfirðinum á miðvikudagskvöld

Útsvarslið Fljótsdalshéraðs, þau Björg, Eyjólfur og Þorsteinn, mæta fulltrúum Hafnarfjarðar í síðasta leik átta liða úrslitanna á miðvikudagskvöldið. Liðið hefur staðið sig með mikilli prýði til þessa og eru miklar væntingar gerðar til liðsmanna nú sem áður.

Gestum gefst kostur á því að mæta í sjónvarpssal og vera viðstaddir beina útsendingu þáttarins og eru Héraðsbúar og brottfluttir Héraðsmenn hvattir til að mæta í Efstaleitið til að styðja okkar fólk.

Þeir sem heima sitja geta mætt í Valaskjálf og fylgst með keppninni á breiðtjaldi.

Fljótsdalshérað sendir Útsvarsliðinu baráttukveðjur með ósk um gott gengi.