Útikennslustofa við Egilsstaðaskóla

Foreldrafélag Egilsstaðaskóla hélt áfram vinnu við útikennslustofu um daginn, í s.k. rjóðri við skólann, en vinna við hana hófst í vor. Hópur foreldra og barna hittust á laugardagsmorgni og unnu að smíði skýlis, hlóðu eldstæði, strengdu klifurkaðal og snyrtu umhverfið. Þá fóru kennarar úr Egilsstaðaskóla í haust á námskeið í úti-eldamennsku og sjá marga möguleika til að nýta þekkinguna sem þar fékkst í rjóðrinu.

Foreldrar barna í Egilsstaðaskóla, sem jafnframt eru starfsmenn Alcoa, unnu í vor að gerð rjóðursins. Gegn þeirri vinnu greiðir Alcoa ákveðna upphæð sem nýtt verður til kaupa á eldunaráhöldum og fleiru nauðsynlegu. Áfram verður haldið við að smíða skýli, bekki og borð á næstu árum og eru þar næg verkefni sem eflaust eiga eftir að gleðja bæði foreldra og nemendur skólans.

Á myndinni má sjá foreldra að vinnu við gerð eldstæðis í útikennslustofunni.