- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Um helgina er verið að ljúka við að dreifa nýjum sorphirðutunnum í þéttbýli Fljótsdalshéraðs. Þar með er gert ráð fyrir að allir íbúar sveitarfélagsins geti tekið þátt í því að minnka sorp til urðunar og auka endurvinnslu þess um leið. Í þéttbýlinu munu íbúarnir flokka sorpið í þrjár tunnur. Þannig er gert ráð fyrir að almennt sorp fari í gráa tunnu, endurvinnanlegt í græna og lífrænt sorp í brúna tunnu. En í dreifbýlinu fer lífrænt sorp í sérstakt jarðgerðarílát.
Þetta nýja sorphirðukerfi, sem sveitarfélagið er nú að taka upp, fellur vel að stefnu Fljótsdalshéraðs þar sem það vill vera öðrum fyrirmynd með því að sýna ábyrgð gagnvart umhverfi og komandi kynslóðum. Gott samstarf við íbúana skiptir miklu máli um að vel takist til að ná þeim markmiðum. Með þessu kerfi tekst einnig að uppfylla ákvæði ESB og EES, sem Ísland ásamt öðrum löndum hafa undirgengist, um að minnka urðun á lífrænum úrgangi.
Kynning á nýju sorphirðufyrirkomulagi fór fram í lok maí s.l. en fyrirhugað er að heimsækja þau heimili, sem ekki náðist til þáum helgina, þ.e. dagana 25. og 26. september. Þeir sem óska eftir að fá fræðslu geta einnig sent póst á netfangið igf@igf.is eða hringt í síma 577 5757.
Í lok síðasta árs var sorphirða á Fljótsdalshéraði boðin út og í framhaldi af því var gerður samningur um þau mál til sjö ára við Íslenska gámafélagið. Íslenska Gámafélagið er handhafi Kuðungsins, umhverfisverðlauna umhverfisráðuneytisins fyrir árið 2008.
Hér á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að fá nánari upplýsingar um sorphirðuna.