- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Urðun á almennu sorpi frá íbúum og fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og í Fljótsdalshreppi hófst að nýju á Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá þann 1. september síðastliðinn.
Samningur hefur verið gerður við Eystein Einarsson eiganda Tjarnarlands um að hann sjái um urðun þess sorps sem berst inn á urðunarstaðinn, svo með þessu breytta fyrirkomulagi hefur verið endurvakið starf, tengt sorpurðun í sveitarfélaginu. Urðun var hætt á Tjarnarlandi í júlí 2009 og síðan þá hefur sorp frá áðurnefndum sveitarfélögum verið urðað, fyrst á Þernunesi í Reyðarfirði en síðan á Heydalamelum í Breiðdal. Gangi allar áætlanir eftir er gert ráð fyrir að á Tjarnarlandi verði framtíðar urðunarstaður Héraðsbúa, Seyðfirðinga og jafnvel íbúa nágrannasveitarfélaga. Áætlað er að á Tjarnarlandi sé nægt land til að urða allt almennt sorp sem kemur til með að falla til á Fljótsdalshéraði, í Fljótsdalshreppi, á Seyðisfirði og í nágrannasveitarfélögum þeirra næstu áratugina.
Í því sambandi skiptir miklu máli að íbúar og fyrirtæki taki frá þann úrgang sem getur farið í endurvinnslu. Ekki síst allan lífrænan úrgang, því mun meiri kröfur eru gerðar til urðunarstaða sem taka við lífrænum úrgangi en annarra.
Á myndinni má sjá Eystein Einarsson eiganda Tjarnarlands og Björn Ingimarsson bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði við fyrsta farminn sem urðaður var á Tjarnarlandi eftir að urðun hófst þar að nýju.