Nýlega hófst vinna við mótun atvinnustefnu fyrir Fljótsdalshérað. Mikilvægt er að hún eigi sér góða fótfestu í hugmyndum og sjónarmiðum þeirra sem stunda atvinnurekstur eða þjónustu í sveitarfélaginu.
Þess vegna hefur atvinnumálanefnd kallað saman 30 manna hóp fólks til þess að vera til ráðuneytis við stefnumótunina og kom hópurinn saman í fyrsta sinn fimmtudaginn 24. maí. Meðan á stefnumótunarvinnunni stendur verða vafamál og vangaveltur annars bornar undir hópinn í tölvupósti. Á fundinum fór fram góð umræða um það hvað sveitarfélagið getur gert til þess að bæta vöxt og viðgang atvinnulífsins almennt. Gert er ráð fyrir að niðurstöður verkefnisins ljúki í haust.