Unnið að eflingu þjónustusamfélagsins á Fljótsdalshéraði

Þjónustusamfélagið Fljótsdalshérað er verkefni sem sveitarfélagið hefur unnið að með fulltrúum frá verslun og ferðaþjónustu undanfarna mánuði.

Verkefnið hefur snúist um að gera tillögur að aðgerðum sem ætlað er að efla verslun, ferðaþjónustu og þjónustugreinar almennt í sveitarfélaginu, s.s. með því að fjölga viðskiptavinum, lengja dvöl gesta og lengja ferðamannatímann og vinna að því að gera Egilsstaði enn frekar að verslunar og þjónustumiðstöð. Nauðsynlegar aðgerðir og framkvæmd þeirra lúta þannig bæði að sveitarfélaginu og fyrirtækjum í þessum atvinnugreinum.

Á fundi atvinnumálanefndar sem haldinn var nú í janúar var staða verkefnisins um Þjónustusamfélagið Fljótsdalshérað kynnt. Einnig var það kynnt í bæjarráði á fundi þess 22. janúar sl. og var eftirfarandi bókun gerð í kjölfarið.

Bæjarráð tekur undir með atvinnumálanefnd og fagnar m.a. því að kominn er af stað starfshópur á vegum sveitarfélagsins skipaður fulltrúum skipulags- og mannvirkjanefndar og umhverfis- og héraðsnefndar til að vinna framgangi þeirra verkefna sem snúa að sveitarfélaginu. Bæjarráð bindur jafnframt vonir við að hagsmunaaðilar í verslun, ferðaþjónustu og annarri þjónustu stofni samtök til að vinna sameiginlega að eflingu þjónustusamfélagsins.