Unnið að eflingu nýsköpunarmenntunar


Föstudaginn 19. febrúar fór fram fyrsti hluti námskeiðsins Umhverfislæsi og staðarstolt - nýsköpunarmennt sem tæki til skilnings og athafna. En verkefnið miðar að því að efla og þróa kennslu í nýsköpunarmennt í skólum á Fljótsdalshéraði og um leið að styrkja nýsköpunar- og frumkvöðlamenningu í samfélaginu. Verkefnið miðar að því að sýna þátttakendum möguleika þess að nýta umhverfi skóla til að efla skilning, sköpun og frumkvæði nemenda svo og að kynna og nota möguleika nýsköpunarmenntar við þróun hugmynda nemenda skólans til að leysa eigin vandamál og þarfir samfélagsins. Það miðar einnig að því að efla staðarstolt nemendanna og auka vitund þeirra um kosti og gæði samfélagsins og umhverfisins.

Verkefnið fellur vel að meginstefnu og menntastefnu Fljótsdalshéraðs og er liður í því að byggja sveitarfélagið upp sem þekkingardrifið samfélag. Það er vettvangur til að skapa sameiginlega sýn á sviði nýsköpunarmenntar milli ólíkra skólastofnana í sveitarfélaginu. En þrjú skólastig koma að því (leik- og grunnskólar og framhaldsskóli) og þannig gefst tækifæri til að vinna með og þróa nýsköpunarmennt og nýsköpunar- og frumkvöðlastarf á heildstæðan hátt innan skólakerfisins.

Alls taka á þriðja tug kennara og stjórnenda þátt í verkefninu sem munu vinna að þróun nýsköpunarmenntar innan sinna skóla og auka tengsl milli skólastofnanna og atvinnulífs á Fljótsdalshéraði. Þátttakendur á námskeiðinu kynnast kennslu- og aðferðafræði nýsköpunarmenntar. Þeir kynnast möguleikum til að nýta umhverfi skóla til að efla skilning og frumkvæði nemenda gegnum þátttöku í skapandi vinnu. Kennarar og stjórnendur eiga að geta hagnýtt innihald námskeiðsins til að skipuleggja kennslu og nám í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt fyrir leik -, grunnskóla og framhaldsskóla.

Tilgangurinn námskeiðsins er að nýta möguleika nýsköpunarmenntar við þróun hugmynda nemenda leik-, grunn- og framhaldsskólans til að leysa eigin vandamál og þarfir  sem og samfélagsins. Í slíku námi eru aðferðir og nálgun nýsköpunarmenntar nýttar til að efla staðarstolt og getu til að vera gerandi í eigin umhverfi. Nemendur í nýsköpunarmennt læra að finna upp nýja hluti, eða endurhanna hluti sem eru til og geta þeirra til að bæta samfélagið er efld. Þeir skoða og skilgreina umhverfi sitt, efnislegt og félagslegt og fá tækifæri til upplifa gegnum virka þátttöku að hinn mannlegi heimur er skapaður af mönnum og  því hægt að breyta honum og bæta. Nemendur fá þjálfun í gagnrýninni hugsun og verklegri færni í hönnun, tækni, viðskiptum og í að hrinda hugmyndum í framkvæmd.

Endanlegur afrakstur af námskeiðinu sjálfu, sem hófst í síðustu viku, er þekking og færni kennara og skólastjórnenda í að sjá til þess að nemendurnir eflist í skapandi hugsun og framtaki. Þeir verði þannig færir um að hagnýta þá þekkingu sem þau afla sér í skóla og í lífinu og til að gera eitthvað með þessa þekkingu hvort sem þau kjósa að bæta við sig námi fjarri heimahögum eða nýta sitt grunnnám til lífs og starfs á heimaslóðum.

Ein af afurðum námskeiðsins er samning skólanámskráa í nýsköpunarmennt með sýn hvers skóla og menntastefnu Fljótsdalshéraðs að leiðarljósi. Þessar námskrár munu taka mið af samfellu og stíganda allt frá leikskólastigi upp á framhaldsskólastig. Nú á vorönn 2010 hafa þátttakendur námskeiðsins byrjað vinnu að mótun og þróun nýsköpunarmenntar í sínum skóla og stefna á að haustið 2010 verði nýsköpunarmenntaáætlun hrint í framkvæmd sem þó miðast við raunhæf og viðráðanleg skref á þessu sviði.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru þær Dr. Rósa Gunnarsdóttir sem starfar sem sérfræðingur hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og frumkvöðull í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt til fjölda ára og Svanborg Rannveig Jónsdóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands í kennslufræði nýsköpunarmenntar og formaður Félags íslenskra kennara í nýsköpunar og frumkvöðlamennt (FÍKNF)

Myndarlegur stuðningur fékkst til verkefnisins úr Sprotasjóði menntamálaráðuneytisins í lok síðasta árs.

Myndin sýnir hluta þátttakenda frá námskeiðinu í Egilsstaðaskóla 19. Febrúar 2010