- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fimmtudaginn 12. apríl 2018 fer fram Ungmennaþing í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Skipuleggjendur þingsins eru meðlimir ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs. Þingið hefst klukkan 13.
Áhersla þingsins í ár er geðheilbrigði ungs fólks á Austurlandi, en það er málefni sem ungmennum er hugleikið og vilja þau gjarnan efla umræðu og vitund um líðan ungmenna.
Á þinginu koma fram Elísabet Reynisdóttir, Ólafur Sigurðsson (Óli bæjó), Sigrún Sigurpálsdóttir og Tara Ösp Tjörvadóttir og ræða þau um geðheilbrigði, hvert á sinn hátt.
Fundarstýra þingsins verður Sigurbjörg Lovísa Árnadóttir, fyrrverandi nemandi í ME, en auk allra sem hér hafa verið nefnd kemur fram á þinginu leynigestur sem allir elska.
Í lok þings verða umræðuhópar þar sem ungmenni eru hvött til þess að taka þátt og ræða þau mál sem brenna á þeim varðandi geðheilbrigðismál ungs fólks.
Síðasta ungmennaþing, sem haldið var í apríl 2017, gekk afar vel og vonast meðlimir ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs til þess að ungt fólk á Austurlandi sæki þingið í ár og nýti tækifærið til að láta rödd sína heyrast.