Ungmennaráð ályktar um ýmis mál

Á fundi bæjarstjórnar í gær voru teknar fyrir fjórar bókanir frá síðasta fundi ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs.

En á fundi ráðsins var því beint til bæjarstjórnar að leita allra leiða til að tryggja sem fyrst viðunandi aðstöðu til skemmtanahalds, s.s. stærri dansleikja, leiksýninga og tónleika, í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði. Í bókun ráðsins kemur fram að í ört vaxandi sveitarfélagi þar sem mikill fjöldi ungs fólks kemur saman, m.a. vegna þeirra tveggja framhaldsskóla sem þar eru, sé algjörlega nauðsynlegt að fundin verði ásættanleg lausn þannig að ungt fólk þurfi ekki, öryggisins vegna, að aka eins oft um fjallvegi að næturlagi. Í bókun bæjarstjórnar kemur hins vegar fram að sérstakur starfshópur er að meta þörfina á og tækifæri til að koma upp í sveitarfélaginu viðunandi félagsaðstöðu fyrir mannamót og skemmtanahald og var ályktun ungmennaráðs vísað til starfshópsins.
Þá fagnaði bæjarstjórn tillögum ungmennaráðs þess efnis að Vegahúsið, sem er kaffi- og menningarhús fyrir ungt fólk, verði staðsett í gamla sláturhúsinu sem sveitarfélagið hefur fest kaup á. Að öðru leyti var tillögunni vísað til menningarnefndar.

Á fundi ungmennaráðsins var lýst “miklum áhyggjum vegna bílastæða við Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem mikil hætta er á slysum vegna þrengsla”, eins og segir í fundargerð þess. Bæjarstjórn bendir á í sinni fundargerð að unnið er að deiliskipulagi vegna lóðar menntaskólans þar sem m.a. er tekið á bílastæðamálum og að lagðar hafi verið fram tillögur sem séu nú í höndum forráðamanna skólans. Þegar þær tillögur hafi verið samþykktar sé fyrirhugað að semja við ríkisvaldið um fjármögnun og framkvæmdir.

Loks vísaði bæjarstjórn tillögu ungmennaráðs um danskennslu í sveitarfélaginu til fræðslunefndar. En ungmennaráðið ítrekaði með bókun óskir sínar um metnaðarfulla ókeypis danskennslu í grunnskólum sveitarfélagsins og hvatti jafnframt stjórnir framhaldsskólanna í sveitarfélaginu til að bjóða upp á danskennslu.

Ungmennaráð er skipað tíu einstaklingum sem koma úr nemendahópi 9. og 10. bekkja grunnskóla sveitarfélagsins og frá framhaldsskólunum tveimur svo og frá frjálsum félagasamtökum og ungmennahúsinu.