- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina, en það er haldið í samstarfi við Ungmennafélag Íslands og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands.
Unglingalandsmót UMFÍ, sem er vímulaus fjölskylduhátíð, hefur verið haldið um verslunarmannahelgi síðan árið 1992. Í ár er komið að því að það verði haldið á Egilsstöðum og nú í annað sinn, því síðast var það haldið hér 2011. Mótið er opið öllum ungmennum á aldrinum 11-18 ára.
Búast má við töluverðum fjölda gesta á mótið, bæði keppendum og aðstandendum þeirra, og er gert ráð fyrir því að allt að 10.000 manns verði á Egilsstöðum og í nágrenni þessa helgi. Mótið mun setja mikinn svip á bæjarlífið mótsdagana, enda dagskrá mótsins fjölbreytt og skemmtileg. Keppt verður í ýmsum íþróttagreinum, allt frá strandblaki til kökuskreytinga, og þá er afþreyingardagskráin afar spennandi.
Til að hægt sé að halda mót af þessari stærðargráðu á Austurlandi er nauðsynlegt að sækja aðstoð til sjálfboðaliða og er þeirra framlag ómetanlegt í þessu eins og flestu öðru íþrótta- og ungmennastarfi á Íslandi. Sjálfboðaliðastjóri Unglingalandsmóts 2017, Sandra María Ásgeirsdóttir, hefur útbúið skráningarblað þar sem hægt er að skrá niður sínar upplýsingar og hvenær hentar best að taka þátt í störfum við mótið. Hér er hægt að finna skráningarformið og að sjálfsögðu er rétt að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til þess að leggja sitt af mörkum.
Allar nánari upplýsingar um mótið og skráningu á það er svo hægt að finna á heimasíðu Ungmennafélags Íslands, umfi.is.