Undirskriftasöfnun vegna Fjarðarheiðarganga á Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði

Á næstu dögum mun fólk frá Blakdeild Hugins og fimleika- og körfuboltadeild Hattar ganga í hús á Seyðisfirði og á Egilsstöðum og Fellabæ til þess að safna undirskriftum til stuðnings Fjarðarheiðargöngum. Óskað verður eftir því að 18 ára og eldri riti nafn sitt undir eftirfarandi áskorun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar:

„Við undirrituð skorum á stjórnvöld að beita sér fyrir því að Fjarðarheiðargöng verði sett framar í endurskoðaða samgönguáætlun heldur en þau birtust í þeirri samgönguáætlun fyrir 2019 – 2023 sem gefin var út á haustdögum 2018. Við gerum kröfu um það að vetrareinangrun íbúa Seyðisfjarðarkaupstaðar verði rofin. Að öryggi ferðalanga sem og íbúa á Austurlandi verði tryggt með jarðgöngum undir Fjarðarheiði. Einnig að samgöngur til Evrópu um Fjarðarheiði á leið úr landi með Norrænu verði gerðar öruggari með gerð jarðganga.“

Í fréttatilkynningu frá bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar kemur fram að bæjarstjórnin „biðlar til íbúa sveitarfélaganna um að taka krökkunum vel. Bæjarbúar eru hvattir til þess að veita þessu stóra hagsmunamáli stuðning með undirskrift sinni og styðja þannig við baráttu okkar sem staðið hefur yfir í um 40 ár. Það er kominn tími til að biðin taki enda.“