Undirritaður samningur um smíði nýrrar reiðhallar á Iðavöllum

Á laugardag, 21. febrúar, undirrituðu Reiðhöll á Iðavöllum ehf og BM Vallá samning vegna byggingu reiðhallar á Iðavöllum á Fljótsdalshéraði. Reiðhöllin verður um 1.500 fermetrar að stærð, tæplega 60 metra löng og 25 metra breið.

Þar að auki verður 300 fermetra þjónustubygging með hesthúsaðstöðu byggð við höllina. Reiðhöllin verður byggð við félagsheimilið Iðavelli, en gert er ráð fyrir 200 fermetra tengibyggingu sem kemur til með að nýtast báðum byggingum. Samningurinn sem var undirritaður á laugardaginn felur í sér að Reiðhöllin á Iðavöllum ehf. kaupir límtréshús af BM Vallá sem verður klætt yleiningum.

Að sögn Bergs Más Hallgrímssonar, stjórnarformanns Reiðhallar á Iðavllum, er verð á slíkri byggingu afar hagstætt um þessar mundir. „Það má segja að við festum kaup á þessari byggingu að vel yfirlögðu ráði. Eftir að hafa velt fyrir okkur kostum og göllum hinna ýmsu gerða af byggingum var ákveðið að ganga til samning við BM Vallá. Þeir gátu í ljósi aðstæðna á markaði boðið okkur húsið á afar góðu verði. Við í stjórn reiðhallar erum því afar ánægð og höfum valið besta og hagstæðasta kostinn sem völ var á," sagði Bergur Már Hallgrímsson við undirritun samningsins. Hann telur að í framhaldinu gangi framkvæmdin hratt fyrir sig. „Áætlun okkar gerir ráð fyrir því að við verðum komin með fokhelda byggingu í júní."

Björn Sveinsson, tæknifræðingur hjá Verkís, hefur verið ráðinn verkefnastjóri byggingarinnar. Verkþættir við jarðvinnu og uppsetningu byggingarinnar verða boðnir út á næstu dögum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar samningur um reiðhöll á Iðavöllum var handsalaður. Fyrir hönd BM Vallá hf. Sigurður Guðjónsson og f.h. Reiðhallar á Iðavöllum ehf, Bergur Már Hallgrímsson formaður hestamannafélagsins Freyfaxa.