Undirbúningur stjórnskipulags í sameinuðu sveitarfélagi

Stjórnskipulagstillaga
Stjórnskipulagstillaga

Mikilvægt er að stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags verði virkt þegar ný sveitarstjórn kemur saman í október, þannig að sveitarfélagið geti unnið hratt og örugglega að fyrirliggjandi verkefnum. Kjörtímabil sveitarstjórnarinnar er stutt, aðeins 20 mánuðir, þar sem kosið verður aftur til sveitarstjórnar í maí 2022 eins í öðrum sveitarfélögum á landinu. Framundan eru mörg brýn og mikilvæg verkefni, sem snúa að reglulegri starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins, áhrifum af heimsfaraldri og innleiðingu nýs sveitarfélags.

Undirbúningsstjórn hefur fjallað um stjórnskipulag sveitarfélagsins, mönnun og starfsheiti lykilstjórnenda í sameinuðu sveitarfélagi. Tillagan er í samræmi við þá hugmynd sem kynnt var á íbúafundum í aðdraganda sameiningarkosninga og byggir á því að stjórnskipulagið sé einfalt, skilvirkt og nýti styrkleika eldri sveitarfélaga. Tillagan hefur verið til umfjöllunar undanfarnar vikur og ræddi mannauðsráðgjafi við 55 starfsmenn sveitarfélaganna til að fá fram þeirra sjónarmið.

Starfsmenn og stjórnendur munu vinna saman í teymum, þvert á svið og verða starfsstöðvar sveitarfélagsins í fjórum byggðakjörnum. Stafrænar lausnir verða nýttar til að tengja saman starfsstöðvar. 

Lagt er til að mynduð verði þrjú svið, hvert með sína fagnefnd. Á hverju sviði starfi þriggja manna teymi stjórnenda og með þeim teymi sérfræðinga og starfsmanna innan hvers sviðs. Stjórnendur munu deila ábyrgð á sviðinu og vinna allir með fagnefnd sviðsins. Á hverjum stað verður heimastjórn og fulltrúi sveitarstjóra sem starfar með heimastjórn og í nánum samskiptum við sveitarstjóra.

Ráðið verður í ný störf verkefnastjóra mannauðs og verkefnastjóra rafrænnar þróunar og þjónustu sem verði lykilaðilar við innleiðingu breytinga í sameinuðu sveitarfélagi. Þá verður ráðið í breytt stjórnendastarf á umhverfis- og framkvæmdasviði, framkvæmda- og umhverfisstjóra. Störfin verða auglýst laus til umsókna í júní. Lagt er til að öllum starfsmönnum verði fundið hlutverk í nýju stjórnskipulagi. Sumum starfsmönnum verður boðið að taka að sér ný hlutverk og verkefni og verður rætt við þá starfsmenn á næstunni.