Undirbúningur Ormsteitis í fullum gangi

Undirbúningur Ormsteitis - Héraðshátíðar á Fljótsdalshéraði er nú í fullum gangi  og er mótun dagskrár á lokastigi.  Rauði þráðurinn í hátíðahöldunum að þessu sinni er 60 ára afmæli þéttbýlis við Fljótið.

En 1. júlí eru 60 ár síðan Egilsstaðahreppur hinn forni var stofnaður með lögum 1. júlí 1947.  Síðan þá hafa allir hreppar á Héraði utan einn verið sameinaðir í eitt sveitarfélag sem heitir nú Fljótsdalshérað.  Sveitarfélagið státar af því að vera víðfeðmasta sveitarfélag á Íslandi eða alls 8.884 ferkílómetrar.

Þessara tímamóta verður minnst með ýmsum hætti á Ormsteitinu sem hefst þann 17. ágúst n.k. og stendur í tíu daga.  Að venju hefst hátíðin með því að íbúar Héraðsins grilla á tólf stöðum á Héraði, bæði í sveit og bæ.  Síðan er farið í skrúðgöngur úr hverfum á Vilhjálmsvöll þar sem hátíðin er sett af héraðshöfðingja með pompi og pragt.  Við tekur svo tíu daga veisla viðburða þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, bæði ungir og aldnir. 

Laugardagurinn 25. ágúst verður hin eiginlega “afmælisveisla” í miðbæ Egilsstaða þar sem mikið verður um dýrðir, s.s. Ormaveisla í Egilsstaðavík, Garðtónleikar,  Víkingabúðir í miðbænum, afmælisveisla í tjaldinu í miðbænum, Útgáfutónleikar Dúkkulísa og lærimeyja þeirra, Hreindýraveisla á öllum veitingahúsum bæjarins, 60 ára afmæliskvöldvaka í tjaldinu, flugeldasýning af Hömrum , Nostalgíuball í Valaskjálf og síðast en ekki síst listsýning Guðlaugar Sveinsdóttur ljósmóður sem er Héraðsbúum að góðu kunn.

Yfirlit yfir dagskrá Ormsteitis er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.