Á Ormsteiti veittu Fljótsdalshéraðsdeild Garðyrkjufélags Íslands og Umhverfissvið Fljótsdalshéraðs sínar árlegu viðurkenningar, sem að þessu sinni skiptust í fjóra flokka: Snyrtilegasta fyrirtækið, snyrtilegasta sveitabýlið, fallegasti garðurinn og snyrtilegasta gatan.
Verðlaunahafar árið 2008 eru: Caró hárgreiðslustofa sem valið var snyrtilegasta fyrirtækið en eigandi er Ragnheiður Vala Bjarnadóttir, Staffell sem hlaut viðurkenningu sem snyrtilegasta sveitabýlið en þar eru ábúendur Oddur Sigfússon, Sigríður Ingvadóttir og Eiríkur Egill Sigfússon, fallegasti garðurinn er að mati dómnefndar við Skógarsel 17a þar sem búa Elfrið Pálsdóttir og Erlendur Magnússon og loks fengu Dalskógar viðurkenninguna fyrir snyrtilegustu götuna. Er öllum verðlaunahöfum óskað til hamingju með viðurkenningarnar með von um að þeir verði öðrum íbúum sveitarfélagsins til fyrirmyndar.