Sigurbjörg Þórarinsdóttir og Bjarni Steinar Kristmundsson ásamt bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar.
Við setningu Ormsteitis sem fram fór miðvikudaginn 10. ágúst, veitti Fljótsdalshérað viðurkenningar fyrir snyrtimennsku og umgengni í sveitarfélaginu. Að þessu sinni voru veittar viðurkenningar í fjórum eftirfarandi flokkum og voru verðlaunahafar sem hér segir:
- Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóðina í íbúðasvæði hlutu Sigurbjörg Þórarinsdóttir og Bjarni Steinar Kristmundsson fyrir Bláskóga 1. Í umsögn dómnefndar segir: Mjög fallegur garður sem hefur verið vel við haldið mörg undanfarin ár. Margar fallegar plöntur sem fá að njóta sín.
- Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu lóðina í atvinnusvæði hlaut Gistihúsið Birta fyrir Tjarnarbraut 7. Í umsögn dómnefndar segir: Snyrtileg lóð sem var lagfærð fyrir nokkrum árum með það í huga að eldri gróður njóti sín. Aðkoman að húsinu er mjög snyrtileg og umhirða öll til fyrirmyndar.
- Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu götu í þéttbýli hlaut gatan Litluskógar. Í umsögn dómnefndar segir: Margar mjög snyrtilegar lóðir sem vel er hugsað um. Engir hlutir sem þarfnast sýnilegs viðhalds sjáanlegir.
- Viðurkenningu fyrir snyrtilegustu jörð í ábúð hlutu Kjartan Sigurðsson og Sigrún Margrét Benediktsdóttir fyrir jörðina Teigasel 1. Í umsögn dómnefndar segir: Ásýnd er til fyrirmyndar, allur húsakostur málaður í sömu litum. Snyrtimennska ábúenda sést þegar heim að býlinu er komið. Hvergi sést drasl eða rusl. Öllum tækjum og búnaði tengdum búrekstri er haganlega komið fyrir. Allir stígar/vegir við hús eru malarbornir og hvergi moldarstígar sem vaðast út í bleytu tíð.
Björn Ingimarsson bæjarstjóri og Anna Alexandersdóttir forseti bæjarstjórnar afhentu verðlaunahöfum viðurkenningarskjal og blómvönd og einnig munu þeir fá skilti sem hægt verður að festa upp við viðkomandi húsnæði, götu og býli.
Það er von Fljótsdalshéraðs að viðurkenningar sem þessi hvetji alla íbúa sveitarfélagsins til snyrtimennsku og góðrar umgengni bæði við náttúruna og eins í og við hýbýli og vinnustaði. Sveitarfélagið óskar framangreindum aðilum til hamingju með viðurkenningarnar.