Tvö ný ársverk til Héraðsskjalasafnsins

Hrafnkell Lárusson forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga kom á síðasta fund bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og greindi frá fjárveitingu sem safnið hefur fengið frá ríkinu til að kosta störf sem lúta að tölvuskráningu á ýmsum frumupplýsingum.  Um er að ræða tæplega 2 ársverk.

Þjóðskjalasafnið beindi þessum verkefnum til safnanna á landsbyggðinni  til að dreifa verkefninu sem víðast. Skilyrði er að verkið sé unnið inni á héraðsskjalasöfnunum, þar sem frumgögnin eru geymd og verkið verði unnið undir stjórn safnsstjóra.

Fjárframlag til ofangreindra starfa tengjast mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar á þorskafla. Á umræddum fundi bæjarráðs var því fagnað að þessi stöðugildi skuli koma til safnsins og bent á að samdráttur er á vinnumarkaði á Héraði eftir að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun drógust saman. Einnig benti bæjarráð í sömu bókun á þau störf sem eru að tapast við mjólkurvinnslu og í landbúnaði og að skreiðarverksmiðja í sveitarfélaginu byggir meðal annars starfsemi sína á þorskveiðum.