Tvær deildir Hattar eru fyrirmyndardeildir ÍSÍ

Tvær deildir Íþróttafélagsins Hattar fengu endurnýjun viðurkenninga frá ÍSÍ sem Fyrirmyndardeildir á Jólamóti fimleikadeildarinnar í íþróttahúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 7. desember.  Það var mikið um dýrðir í íþróttahúsinu og ánægjulegt þegar tvær stærstu greinarnar innan Hattar tóku á móti þessari viðurkenningu á sama tíma. Það var Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, sem afhenti fulltrúum deildanna, þeim Skarphéðni Smára Þórhallssyni, formanni yngri flokka í knattspyrnu, og Dagbjörtu Kristinsdóttur, gjaldkera fimleikadeildarinnar, viðurkenningarnar og fána Fyrirmyndarfélaga.  Ungir iðkendur frá báðum deildum voru viðstaddir afhendinguna og settu skemmtilegan svip á hana.
Fimleikadeild Hattar hlaut sína viðurkenningu árið 2004 og knattspyrnudeildin árið 2007.
 
Hvað felst í því að vera fyrirmyndarfélag:
Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins. Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Þetta hefur hún gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfi sé stefnt. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna- og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf. Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir látið gera úttekt á starfsemi sinni eða hluta hennar miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig Fyrirmyndarfélag eða Fyrirmyndardeild.