Tour de Ormurinn: Brautarmet féllu

Þórarinn Sigurbergsson setti brautarmet þegar hann varð fyrstur í mark í 103 km keppni í hjólreiðakeppninni Tour de Orminum sem fram fór á Fljótsdalshéraði á laugardag. Þórarinn kom í mark á 3:49,12 tímum og bætti þar með brautarmetið frá í fyrra um þrettán mínútur. Það átti Unnsteinn Jónsson sem kom annar í mark á 3:56,55 klst. Aðalsteinn Aðalsteinsson varð þriðji í 103 km hringnum á tímanum 4:53,55 klst.

Í keppninni er ræst í Hallormsstaðarskógi og hjólað út í Egilsstaði og upp Fell. Tveir hringir eru í boði, í lengri hringnum er hjólað alla leið inn að innsta bæ í Fljótsdal en í styttri hringnum, 68 km umhverfis Löginn en þá er farið yfir brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal við Hengifoss. Endamarkið er líkt og rásmarkið á Hallormsstað.
Þar varð Hafliði Sævarsson fyrstur í mark á 2:30,19 klst. sem einnig er nýtt brautarmet. Óskar Aðalbjarnarson varð annar í karlaflokki 2:57,04 klst.
Eiginkona hans, Stefanía Gunnarsdóttir, varð fyrst í kvennaflokki á 2:59,14 en Pálína Margeirsdóttir önnur á 3:49,15.

Í styttri vegalengdinni er einnig boðið upp á liðakeppni þar sem þrír skipta með sér erfiðinu. Hilmar Gunnlaugsson, Sigurður Magnússon og Ívar Ingimarsson mynduðu liðið sem kom fyrst í mark á 2:39,28 en þau Aðalsteinn Þórhallsson, Gyða Guttormsdóttir og Hjálmar Jóelsson urðu önnur á 3:17,27.

Veður til hjólreiða  var ágætt á laugardag. Nokkuð hlýtt var í veðri, ríflega fimmtán stiga hiti og sól. Sunnangola kældi keppendur nokkuð en gerði þeim hins vegar erfitt, sérstaklega í brekkunum í Fellum.

Tour de Ormurinn var fyrst haldinn í fyrra. UÍA (Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands), sveitarfélagið Fljótsdalshérað og ferðaþjónustufyrirtækið Austurför standa sameiginlega að keppninni.