Tour de Ormurinn á laugardaginn

Frá startinu á keppninni fyrir nokkrum árum síðan
Frá startinu á keppninni fyrir nokkrum árum síðan

Tour de Ormurinn hjólreiðakeppnin, sem haldin hefur verið frá árinu 2012 á Fljótsdalshéraði og í Fljótsdalshreppi, fer að þessu sinni fram laugardaginn 10. ágúst og eru rás- og endamark á Egilsstöðum. Hægt er að skrá sig í keppnina til 9. ágúst.

Hjólaleiðir eru tvær, annars vegar 68 km og hins vegar 103 km og boðið er uppá einstaklings- og liðakeppni. Keppnin er opin öllum 12 ára og eldri. Hjólað er umhverfis Löginn í styttri hringnum en inn í botn Fljótsdals í þeim lengri. Mikill metnaður er lagður í öryggismál og að umgjörð keppninnar beri austfirskri menningu, sögu og náttúru glöggt vitni.

Á Facebook síðu keppninnar koma fram nokkrar tímasetningar sem keppendur þurfa að taka tillit til:

Á föstudaginn, 9. ágúst, milli klukkan 18:00 og 21:00 fer fram afhending gagna í Tjarnarási 6, skrifstofu UÍA. Sjáir þú þér ekki fært að mæta á þeim tíma hafðu þá samband við okkur í tölvupósti eða síma.

Á laugardaginn, 10. ágúst, er svo stóri dagurinn! Keppendur skulu vera mættir við N1 á Egilsstöðum ekki seinna en 8:30 á laugardagsmorgni. Keppnin verður ræst kl. 9:00.
Á leiðinni eru drykkjastöðvar en í endamarki verður keppendum boðið í kjötsúpu á Gistihúsinu.

Verðlaunaafhending fer fram klukkan 14:30 við Gistihúsið, Egilsstöðum. Þar verður einnig dregið úr happdrætti viðstaddra keppenda.
Keppendur fá allir frítt í sund og 50% afslátt ofan í Vök Baths.

Það er algjör hjálmaskylda í keppninni og hvetjum við keppendur til að vera í skærum litum en þátttaka keppenda er á eigin ábyrgð. Við eigum til vesti fyrir þá sem vilja en annars hvetjum við keppendur til að kynna sér reglurnar á www.tourdeormurinn.is.

Einnig má finna upplýsingar á Facebook síðu keppninnar hér https://www.facebook.com/TourDeOrmurinn