Tónlistarveisla á Eiðum

Föstudaginn 16. mars hefst vegleg tónlistarveisla á Eiðum. Veislan stendur frá föstudaginum til sunnudagsins 18. mars.  Á tónleikum verða flutt verk eftir Vivaldi, Béla Bartók og Hildigunni Rúnarsdóttur. 

Á föstudeginum verða “Árstíðir” Vivaldis fluttar af Kammersveitinni Aþenu með fiðluleikarana Hlíf Sigurjónsdóttur og Hjörleifs Valssonar í forystu.
Um helgina 17.-18. mars fer fram námskeið fyrir strengjanemendur undir leiðsögn þeirra Hlífar og Hjörleifs.  Þann 18. mars verða svo lokatónleikar hátíðarinnar. Á efnisskránni eru fiðludúettar eftir Béla Bartók og Hildigunni Rúnarsdóttur í flutningi Duo Landon auk tónlistar í flutningi kennara og nemenda námskeiðsins.

Árstíðir Vivaldis kannast flestir við af veisluborði tónbókmenntanna, þó
sjaldgæf séu tækifærin til að hlusta á þær í lifandi flutningi. Kammersveitin
Aþena, sem flytur þetta vinsæla verk Vivaldis er skipað fiðluleikurunum
Hlif Sigurjónsdóttur, Kristínu Björgu Ragnarsdóttur og Ólöfu Þorvarðsdóttur.  Víóluleikarar eru þær Sarah Buckley og Sesselja Halldórsdóttir. Lovísa Fjeldsted leikur á selló, Þórir Jóhannsson á kontrabassa og Snorri Örn Snorrason á lútu.  Einleikari er Hjörleifur Valsson, fiðluleikari.

Dagsskrá Tónlistarveislunnar á Eiðum verður í aðalatriðum þessi:

Föstudaginn 16. mars, kl. 20:00 – Tónleikar Kammersveitarinnar
Aþenu. Einleikari Hjörleifur Valdsson.

Laugardaginn 17. mars og sunnudaginn 18. mars: Námskeið fyrir
strengjanemendur eystra. Samspilsæfingar m.a. kafli úr árstíðunum.
Nemendur fá einnig tilsögn í  einleiksverkum sínum

Laugardaginn 17. mars, kl. 13-16,  - Opinn “Master Class”

Sunnudaginn 18. mars, tónleikar kl. 17 –  fiðludúettar eftir Bartók og Hildigunni Rúnarsdóttur í flutningi Duo Landon. Duoið skipa Hlín og Hjörleifur.  Tónlist í flutningi kennara og nemenda námskeiðsins.

Þetta er í fyrsta sinn að slík tónlistarveisla er haldin að menningarsetrinu
á Eiðum, en væntanlega verður slík veisluhöld árlega ef undirtektir
gesta verða góðar.