Tillögur um uppbygginu öldrunarþjónustu

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, sem haldinn var þann 16. maí síðast liðinn, var lögð fram skýrsla með tillögum um uppbyggingu heildstæðrar öldrunarþjónustu í Egilsstaðalæknishéraði.

Í skýrslunni er fjallað um áætlaða mannfjöldaþróun fram til ársins 2020 og leitast við að leggja mat á hver verði fjöldi eldri íbúa sem muni nota og þurfi hin ýmsu þjónustuúrræði.

Skýrslan var tekin saman af þeim Halldóri Sig. Guðmundssyni félagsmálastjóra Fljótsdalshéraðs og Höllu Eiríksdóttur hjúkrunarstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum, en mun stærri hópur einstaklinga frá sveitarfélaginu og HSA kom að gerð skýrslunnar.

Tillögurnar sem starfshópurinn lagði fram og bæjarstjórn hefur nú gert að sínum eru um eftirfarandi þætti:
- Tekið verði í gagnið nýtt hjúkrunarheimili /-deild – og núverandi hjúkrunarrýmum verði breytt úr fjölbýli í einbýli
- Dagvistarrýmum verði fjölgað
- Heimaþjónusta verði efld – bæði heimahjúkrun og heimilisaðstoð
- Komið verði á akstursþjónustu fyrir forgangshóp eldra fólks
- Aukin upplýsingamiðlun / upplýsingamiðstöð fyrir eldra fólk
- umdæmi þjónustuhóps verði breytt og aukin samræming í vistunarmati
- Skammtímavistun verði gerð aðgengileg
- Sjúkra og öldrunarlækningadeild verði starfrækt við HSA á Egilsstöðum
- Þörf fyrir sambýli / dagvistun fyrir heilabilaða verði skoðað sérstaklega
- Aukið samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu um heilsueflingu eldra fólks
- Aukið samstarf um skiplagða sjálfboðaliðastarfsemi m.a. í samstarfi við Félag eldri borgara
- Núverandi stjórnskipulagi öldrunarþjónustu á svæðinu verði breytt og horft til þess að sveitarfélagið taki við þessum málaflokki

Eins og fram kemur í samþykkt bæjarstjórnar verða næstu skref að leita samstarf við fagráðuneyti félags og heilbrigðismála um framkvæmdaáætlun sem byggi á þessari stefnumörkun heima í héraði.