Tilkynning um lögheimilisflutning

Fyrir fyrsta des. nk. eiga allir þeir sem búsettir eru á Fljótsdalshéraði, en voru ekki með lögheimili þar samkvæmt síðustu íbúaskrá, að hafa fyllt út þar til gerða flutningstilkynningu til Þjóðskrár Íslands og tilkynnt rétt lögheimili, sb. lög nr. 21/1990. Hið sama gildir um þá sem flutt hafa heimili sitt innan sveitarfélagsins. Tilkynna á um flutning eigi síðar en 7 dögum eftir að hann á sér stað. Minnt er á skyldu húseigenda að tilkynna um heimilisfestu leigjenda sinna. Eðlilegt hlýtur að teljast að einstaklingur sé með lögheimili sitt og greiði skatta og skyldur til þess sveitarfélags, þar sem hann býr og nýtur þjónustu og réttinda sem íbúi. Mikið af réttindum fólks eru tengd lögheimilisskráningu og því er mikilvægt að lögheimili sé ávallt rétt skráð.


Vísað er til 1 gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili. Þar segir m.a. svo:

“Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er, þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika”.

Eyðublaðið liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins og einnig er það að finna á vef Þjóðskrár.

Hér með er skorað á alla þá sem ekki hafa þegar gengið frá flutningi lögheimilis skv. framanskráðu, að ljúka því hið fyrsta og fara þar með að lögum.

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs