- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Til skrifstofu Heilbrigðiseftirlits Austurlands berast iðulega kvartanir um að hrafnar valdi ónæði á Egilsstöðum og að af þeim séu óþrif. Eitthvað er um að íbúar Fljótsdalshéraðs séu að fóðra hrafna og er það eflaust vel meint.
Um villta fugla gildir almennt að ekki er æskilegt að þeir séu fóðraðir, nema í harðæri, heldur er þeim hollara að afla sér sjálfum fæðu í náttúrunni. Fuglar sækja hins vegar í auðtekna fæðu ef hún býðst en valda þá oftar en ekki ama í nágrenni við fóðurstaðinn. Því getur fóðrun leitt til fjölgunar á hröfnum í nálægð við fóðurstað með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa.
Þann 14. nóvember barst HAUST fyrsta kvörtun vetrarins er varðar fóðrun hrafna en hafði þeim verið gefið hrátt kjöt og egg við skólphreinsivirkið við Einbúablá. Eins og sjá má á mynd hefur ekki mikið verið étið af fóðrinu enda tíðarfar gott og lítið um hrafna enn sem komið er innan bæjarmarkana. Þrátt fyrir það hlýst mikill óþrifnaður af útburði á slíku æti.
Hér með eru íbúar Fljótsdalshéraðs vinasamlegast beðnir um að fóðra ekki hrafna undir neinum kringumstæðum.