Tilboð opnuð í rekstur tjaldstæðis á Egilsstöðum

Í dag klukkan 13.00 voru opnuð tilboð í rekstur nýs tjaldstæðis á svo kölluðum Barrareit, í miðbæ Egilsstaða. En tilboðsfrestur rann út á hádegi í dag. Á sama tíma rann út frestur til að skila inn hugmyndum um starfsemi í þeim hluta húsnæðisins að Kaupvangi 17 sem ekki er ætlaður sem þjónustuaðstaða fyrir tjaldstæðið. Alls bárust  sex tilboð í rekstur tjaldstæðisins, auk þess sem þrír aðilar skiluðu inn hugmyndum um starfsemi í Kaupvangi 17.

Á haustmánuðum í fyrra var byrjað að lagfæra „Barra“ reitinn og farið að undirbúa hann til að geta orðið tjaldstæði til næstu ára. Nokkru fyrir jól var síðan auglýst eftir tilboðum í rekstur tjaldstæðisins og hugmyndum um notkun húsnæðisins. 

Þessir skiluðu inn tilboðum í rekstur tjaldstæðisins: Rúnar Ingi Hjartarson, Þjónustumiðstöð SKG ehf, Heiður Vigfúsdóttir og Heiðdís Halla Bjarnadóttir, Arinbjörn Þorbjörnsson, Steindór Jónsson ehf, Björk Sigurgeirsdóttir og Sara Kristín Friðriksdóttir. Þessir aðilar skiluðu sérstaklega inn hugmyndum vegna starfsemi í Kaupvangi  17: Steindór Jónsson, Rúnar Ingi Hjartarson, Heiður Vigfúsdóttir og Heiðdís Halla Bjarnadóttir

Nú mun atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs og bæjarráð fara yfir tilboðin, bera þau saman og meta þannig að þau verði með öllu samanburðarhæf. Bjóðendum verður öllum svarað skriflega og gefinn frestur til andmæla. Vonir standa til að niðurstaða í málinu liggi fyrir í lok janúar.