Til þeirra sem selja gistingu á Fljótsdalshéraði

Upplýsingar um auglýst gistirými til ferðamanna er að finna á sérstökum netsíðum. Þær upplýsingar eru opnar öllum og þar með hefur Fljótsdalshérað, Sýslumaður, Heilbrigðiseftirlit og Vinnueftirlitið aðgang að upplýsingum um hverjir auglýsa gistirými til ferðamanna.

Áður en heimilt er að selja gistirými til ferðamanna þarf að uppfylla ákveðin skilyrði:


Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal sækja um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar.

Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 skal sækja um rekstrarleyfi (gistileyfi) til Sýslumannsins á Seyðisfirði en skilyrði fyrir útgáfu leyfis er jákvæð umsögn frá byggingareftirliti, eldvarnareftirliti, heilbrigðiseftirliti og sveitarstjórn.

Athygli er vakin á því að við auglýsingu á gistirými eða annarri staðfestingu um slíka notkun er Fljótsdalshéraði heimilt að hækka fasteignagjöld gistirýmis í atvinnurekstrarflokk. Skorað er á þá sem nú þegar auglýsa eða selja gistirými án tilskilinna leyfa, að sækja um starfs- og rekstrarleyfi.

 Öll þau gistirými sem fengið hafa starfs- og rekstrarleyfi, annað hvort í hluta húsnæðis eða öllu, verða sett í atvinnurekstrarflokk eftir 1. janúar 2016. Þeim aðilum, sem þegar eru með tilskilin leyfi fyrir gistirýmum, munu verða send bréf þar sem tilkynnt verður um áform um að hækka fasteignagjöld í atvinnurekstrarflokk. 

Umhverfis- og skipulagsfulltrúi Fljótsdalshéraðs.